Af hverju hör?

Hör á sér árþúsundalanga sögu en hör barst til Evrópu fyrir 5000 árum síðan hið minnsta. Hör er bæði ræktaður til manneldis og vefnaðar og þrífst vel á svalari svæðum heims. Hörfræ og hörfræjaolía eru notuð í eldamennsku og efni úr höri njóta nú sívaxandi vinsælda á heimsvísu vegna frábærra eiginleika sinna og hversu umhverfisvænt efnið er.

Við framleiðslu hörefna er notast við margfalt minna vatn en við framleiðslu bómullarefna. Þá er einnig notast við minna skordýraeitur og hægt er að vinna hörtrefjar án nokkurra skaðlegra efna. Bómullarrækt krefst einnig stórra landsvæða, en hör vex hraðar og betur í lakari jarðvegi. Allt þetta leggst á eitt um að gera hör að afar umhverfisvænum valkosti.

Eiginleikar hörs:

  • 3 sinnum sterkari og 5 sinnum slitsterkari en bómull. Hágæða hörefni geta enst í allt að þrjátíu ár.
  • Hör andar vel, hentar vel viðkvæmri húð og hefur meira að segja sýkladrepandi eiginleika. Hörefni eru því góður valkostur fyrir ung börn og fólk með viðkvæma húð.
  • Með hverjum þvotti mýkist hörefnið.
  • Hör hefur hitatemprandi eiginleika; hlýjar þegar nætur eru kaldar og kælir líkamann þegar heitt er úti.
  • Hör er umhverfisvænn og brotnar alveg niður í náttúrunni.

Umönnun hörs

Þvo

Ný hörefni ætti að þvo í kaldara vatni í fyrstu skiptin. Í fyrsta þvotti er mælt með því að aðskilja hörefnin frá öðrum þvotti og þvo þau sér. Almennt er mælt með því að hör sé síðan þveginn á 40°C en til að losna við þráláta bletti má þvo hör á 60°C.

Ef þú kýst að handþvo hörefnin þín skaltu gæta þess að skola þau varlega. Snúið ekki upp á, krumpið eða nuddið efnið harkalega, það getur skaðað efnin.

Þurrka

Hvort sem þú kýst að þurrka hörefni á snúru, í þurrkara eða liggjandi á handklæði skaltu ganga úr skugga um að efnið sé dálítið rakt áður en þú straujar það. Sé hvítt hörefni þurrkað í sól heldur það hvíta litnum lengur. Ofþurrkun er skaðleg öllum efnum þar sem það veikir trefjarnar og veldur því að efnin hlaupa og hnökra.

Strauja

Strauið hörefnið á röngunni á meðan það er enn rakt. Notið gufustraujárn á heitri stillingu fyrir hör og hafið úðabrúsa með vatni við höndina ef þörf krefur.

Hör
Hör

© 2023 Allur réttur áskilinn